Um málþing

Um málþing

Ég var að koma af áhugaverðu málþingi sem haldið var í Kennaraháskólanum í tengslum við Háskólafundaröð utanríkisráðuneytisins. Yfirskriftin var Menntun í samfélagi þjóða og fluttu erindi menntamálaráðherra, Ólafur Páll Jónsson lektor í KHÍ og Allyson Macdonald, prófessor í KHÍ. Tölur og umræður snerust að mestu um háskólamenntun í ljósi hnattvæðingar. Allt var þetta mjög áhugavert og umræður skemmtilegar sem fylgdu í kjölfarið. Ein athugasemd sem ég gerði í lokin var að ég hafði vonast til að farið yrði inn á áhrif hnattvæðingar og alþjóðavæðingar á kennaramenntun og menntun á framhalds-, grunnskóla- og leikskólastigum. Ólafur Páll kom að vísu inn á kennaramenntunina en um hin skólastigin var ekkert fjallað. Þessi umræða um alþjóðavæðingu háskólastigsins hefur verið í gangi nokkuð lengi og farið fram víða en fyrr eða síðar verðum við að átta okkur á því að hin skólastigin mótast af hnattvæðingunni líka og því er þörf á þeirri umræðu.

Eitt sem virðist ætla að loða við þessa umræðu er hvað lykilhugtök, sérstaklega alþjóðavæðing og hnattvæðing, eru mikið á reiki. T.d. sagði menntamálaráðherra að það væri mat sumra að alþjóðavæðing væri að víkja fyrir, eða breytast í, hnattvæðingu og átti þá við að alþjóðleg tengsl eru að breiðast út. Þetta hef ég ekki heyrt áður og þykist ég vera nokkuð víðlesin um þessi mál. Almennt eru alþjóðavæðing og hnattvæðing skilgreind sem sitthvort fyrirbærið þó vissulega séu þau skyld. Þá er yfirleitt talað um – alla vega í tengslum við menntun – að alþjóðavæðing sé viðbragð við hnattvæðingu. Það er nokkuð greinilegt að menntamálaráðherra og hennar ræðuhöfundar leggja allt annan skilning í þessi hugtök en ég og, að ég held, flestir þeir sem fást við fræði þessu tengt.
(er búinn að skrifa meira um þetta hér)

Ólafur Páll hafði meira um hnattvæðingu að segja þótt hann hafi ekki beint reynt að leggja fram skýra skilgreiningu. En það var kannski óþarft þar sem hans erindi snerist meira um það að sýna með skemmtilegum dæmum hvaða áhrif hnattvæðing hefur haft á okkar samfélag. Mér finnst samt að það þurfi að taka sérstaklega á þessu innan menntageirans og koma þessari hugtakanotkun í ákveðinn farveg. Þetta er mjög brýnt vegna þess að við þurfum að horfast í augu við það að, í dag, um leið og við erum að reyna að búa nemendur undir að vera þátttakendur í hnattvæddu samfélagi erum við, og þeir, þegar í þessu samfélagi (ath. það að þeir sem eru að hefja háskólanám á næsta ári hafa flestir alist upp við það í a.m.k. 10 ár að tölvur, farsímar og net – helstu drifkraftar hnattvæðingarinnar – eru sjálfsagðir hlutir). Og það sem meira er að þetta er samfélag sem einkennist af örum og sífelldum breytingum. Við megum einfaldlega ekki við því að vera að þvæla þessu fram og til baka eins og við virðumst eiga til.

Allyson Macdonald sagði svo frá háskólakerfi Sameinuðu Þjóðanna (HSÞ) og þeim 3 stofnunum hans sem eru reknar hér á landi, þ.e. Jarðvarmaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Landgræðsluskólinn. Það er nokkuð merkilegt að af ca. 12 stofnunum HSÞ sem eru dreifðar um allan heim skulu 3 þeirra vera á Íslandi enda þykja smæð landsins og samsvarandi stuttar boðleiðir henta vel til slíks reksturs. Allyson gerði grein fyrir hugmyndafræðinni sem HSÞ byggir og vísaði m.a. mikið í merka ritið Learning: The treasure within (stundum líka kallað “The Delors Report” eftir formanni nefndarinnar sem stýrði útgáfunni) um tengsl menntunar og sjálfbærar þróunar. Aðrar skemmtilegar staðreyndir sem komu fram hjá Allyson voru að þeir nálgast bráðum 1.000 manns sem hafa lokið námi við stofnanir HSÞ hér á landi og dreifast um allan heim. Enn er mjög gott samstarf milli flestra þeirra og skólana hér á landi sem er eitt af helstu markmiðum námsins, þ.e.a.s. að byggja upp samstarfsnet sérfræðinga í þróunarlöndum.

Athugasemdir