Hnattvæðing, upplýsingatækni og menntun

Um daginn bloggaði ég um málþing sem ég sótti í KHÍ. Mig langar að taka aftur upp eitt mál sem ég nefndi þar, sem er um umræðu hér á landi um hnattvæðingu. Umfjöllun um þessi mál hafa verið mjög á reiki og ljóst að fólk er ekki alltaf að tala um sömu hlutina. Fyrst ætla ég að renna yfir almennar hugmyndir um hnattvæðingu og skyld hugtök sem fræðimenn hafa sett fram. Síðan ætla ég aðeins að nefna af hverju þessi umræða á heima á bloggi sem gefur sig út fyrir að vera að mestu um upplýsingatækni og menntamál.

Hvað er hnattvæðing
Á málþinginu nefndi Ólafur Páll Jónsson að hnattvæðing ætti að vera “mennsk”. Fulltrúi utanríkisráðuneytisins spurði sérstaklega um þetta og bað hann að skýra mál sitt, sem hann gerði og gerði vel. Mig langaði samt að bæta við svar Ólafs Páls en gerði það ekki á málþinginu þar sem komið var yfir tíma og spurningunni var beint sérstaklega til hans þannig að ég ætla að leyfa mér að gera það hér.

Þó að Ólafur Páll hafi ekki vísað í Þúsaldaryfirlýsingu Sameinuðu Þóðanna eru orð hanns um “mennska” hnattvæðingu í fullu samræmi við það sem þar er sagt. Í 5. grein segir að “megin viðfangsefni okkar í dag er að tryggja að hnattvæðing verði jákvætt afl fyrir alla íbúa jarðar.” (lausleg þýðing mín). Það er tvennt sem mér finnst áhugavert við þessa kröfu. Annars vegar felst í henni viðurkenning á að hnattvæðingunni verður ekki snúið til baka – svona er heimurinn í dag og svona verður hann. Hins vegar felst líka í þessu að hnattvæðingin er ekki einhver óstjórnleg alda sem hellist yfir okkur hvort sem okkur líkar vel eða verr – við höfum vald, og jafnvel skyldu, til að móta hana. Þannig má segja að hnattvæðingin, eins og hún er sett fram hér, er orðræða sem á sér stað á heimsvísu og það er á ábyrgð okkar allra að tryggja að sem flestir fái að taka þátt í þessari orðræðu til að tryggja að hún endurspegli þarfir, þekkingu og gildismat allra sem hún snertir.

Þó að 5. grein Þúsaldaryfirlýsingarinnar segi okkur margt um hnattvæðinguna segir hún ekki hvernig þessi hnattvæðing birtist í okkar samfélögum og það er eiginlega það sem ég held að vefst fyrir fólki hér á landi (og víðar). Það hafa margir fræðimenn reynt að varpa ljósi á þetta efni. Meðal þeirra helstu í dag, sem ég ætla að fjalla um hér, eru Manuel Castells, Anthony Giddens, David Held og Jan Aart Scholte. Fljótt á litið eru helstu einkenni sýn þessara manna á hnattvæðingu þessi:

Castells: “Network society/Space of flows” – samfélög og félagsleg gildi í dag byggjast að miklu leyti á rafrænum tengingum sem taka á móti og vinna úr upplýsingum. Til verður miðlægt svæði þar sem upplýsingar streyma (Space of flows). Þeir sem skapa sér yfirráðandi stöðu í hnattvæddu samfélag leitast við að byggja upp tengsl við þetta miðlæga svæði frekar en þeirra staðbundna umhverfi.

Giddens: “… the intensification of worldwide social relations” – Giddens bætir við “World System Theory” Wallersteins. Kenning Wallersteins snýst fyrst og fremst um hnattrænar efnahagslegar tengingar sem hann rekur langt aftur í tímann. Giddens notar svipaða hugmyndafræði en bendir á að nú er ekki nóg að tala bara um efnahagslegar tengingar heldur félagslegar og menningarlegar tengingar af ýmsu tagi líka. Það sem stýrir þessari þróun er upplýsingatækni.

Held: Félagsleg samskipti eiga sér stað í nýju hnattrænu rými – Hugmyndir Held og Giddens eru nokkuð skyldar þó nálgunin sé ekki sú sama. Eins og Giddens vill Held undirstrika að hnattvæðing nær til mun fleiri félagslegra þátta en bara það efnahagslega. Held leggur hins vegar meiri áherslu á rýmisbreytingar, þ.e.a.s. hvernig hið hnattræna er að troða sér inn í okkar staðbundna rými – við getum í vissum skilningi verið “í” London þótt við sitjum heima í stofunni okkar í Reykjavík. Auðvitað – enn og aftur – er þetta að mestu nútíma upplýsingatækni að þakka.

Scholte: “Supraterritoriality” – Eins og Held beinir Scholte athyglinni að huglægu rýmisbreytingunum sem hnattvæðingin hefur í för með sér. Scholte skilgreinir hnattvæðinguna út frá hinu “yfir-staðbundna”, þ.e.a.s. að við erum enn staðbundinn en að við getum yfirstigið það með því að fara inn á hnattræna rýmið sem upplýsingatæknin og skyldar þróanir hafa skapað. En eitt sem gerir Scholte sérstaklega áhugaverðan eru pragmatísku rökin hans. Hann bendir á tilhneiginguna til að samsama hnattvæðingu við ýmislegt annað, e.o. alþjóðavæðingu, “vesturvæðingu”, nýfrjálshyggju o.s.frv., en segir að slíkar skilgreiningar eru einfaldlega ekki gagnlegar fyrir orðræðuna um hnattvæðingu. Orðræða um hnattvæðingu er þörf til þess að tryggja að hnattvæðingin verði jákvæð en samsemdarskilgreiningar loka á áframhaldandi orðræðu. Með þessu hefur Scholte sameinað helstu þætti hugmynda Giddens og Held um hnattvæðing við væntingar og markmið Þúsaldaryfirlýsingarinnar.

Það sem við fáum út úr þessu öllu er að þó að við getum rakið þróun hnattvæðingar langt aftur í tímann er eitthvað sérstakt að gerast núna og það er vegna upplýsingatækninnar. Það er að rúm og tími eru að þjappast þannig að við getum í vissum skilningi verið nánast hvar sem er í heiminum sama hvar við erum staðsett. Það er gífurlega ör þróun í þessu en við höfum enn yfirhöndina og getum, og eigum, að stýra þróuninni þannig að hún gagnast öllum í heiminum og stuðli að almennu jafnrétti og hagsæld.

Umræðan um hnattvæðingu á Íslandi
Hnattvæðingin hefur varla farið framhjá okkur hér á Íslandi. Við erum meðal þjóða sem geta státað sig af mestu tölvueign og bestu nettengingum, farsímanotkun er mikil og þjónustusvæði útbreidd, útrás íslenskra fyrirtækja er í fullum gangi, við erum á stöðugri ferð um heiminn, o.s.frv. Samt er í umræðunni hér hugtökum e.o. alþjóðavæðing og hnattvæðing hent saman eins og um sama fyrirbærið er að ræða og hnattvæðingu er enn gjarnan lýst sem efnahagslegri þróun. Dæmi um hvað þessi hugtök eru á reiki í íslenskri umræðu sjást víða:

  • Í skýrslu sem kom út á vegum utanríkisráðuneytisins undir yfirskriftinni Alþjóðavæðing segir “Alþjóðavæðing (e. globalisation)…” Röng þýðing. Ætti að vera “Alþjóðavæðing (e. internationalisation)” eða “Hnattvæðing (e. globalisation)”.
  • Í ræðu menntamálaráðherra á málþinginu í KHÍ sagði hún það mat sumra að alþjóðavæðing væri að breytast í hnattvæðingu. Ha?!? Meira um þetta neðar.

Það er augljóst að þegar þessi hugtök eru notuð á þennan hátt er einfaldlega ekki verið að tala um sömu hluti og þeir fræðimenn sem ég fjallaði um hér að ofan. Algengast er að hugtökunum hnattvæðing og alþjóðavæðing er ruglað saman. En ef maður hugsar aðeins út í það meikar það einfaldlega ekki sens. Alþjóðavæðing snýst um þjóðir eins og hugtakið segir. Þjóðir eru fólk – án þeirra er engin þjóð. Ef alþjóðavæðing og hnattvæðing eru það sama vaknar spurningin – hvernig getur þjóð verið hnattræn? Væntanlega væri það þá að hún væri svo dreifð að aðila hennar væri að finna alls staðar á hnettinum. En þetta er ekki það sem fræðimennirnir sem ég nefndi eru að tala um. Dreifing þjóðar stuðlar ekki að þjöppun tíma og rúms nema að einstaklingar geti auðveldlega haldið sambandi sín á milli. Hvað er þá alþjóðavæðing? Hún er tvenns konar. Annarsvegar að samfélög eru að verða blandaðri vegna flutninga fólks og hins vegar að reynt er að stuðla að því að tiltekið umhverfi endurspegli sem flestar þjóðir heims. Það fyrra er afleiðing hnattvæðingar sem við sjáum t.d. í alþjóðavæðingu vinnuafls á Íslandi. Það síðara er viðbragð við hnattvæðingu sem við sjáum t.d. í háskóla- og vísindasamfélögum víða um heim.

Hnattvæðing og menntastofnanir
Menntastofnanir eru þær stofnanir sem hafa það hlutverk að standa vörð um og efla okkar þekkingu. Nútíma hnattvæðing, sem byggir á upplýsingatækni, hefur haft gífurleg áhrif á þessar stofnanir vegna aukins flæði upplýsingar og þekkingar. Eitt sem hnattvæðingin hefur undirstrikað er að þekking þarf á þessu flæði að halda til þess að eflast og þróast og því meira flæði, þ.e.a.s. skoðanaskipti o.þ.h., þeim mun örari verður sú þróun. Menntastofnanir (sérstaklega háskólar) hafa því verið fljótar að átta sig á að til þess að viðhalda sinni stöðu í hnattvæddu umhverfi þurfa þær að tryggja að flæði þessarar þekkingar finni sér öflugan farveg innan þeirra. Þess vegna leitast menntastofnanir við að alþjóðavæðast, þ.e.a.s. að stuðla að því að þeirra nemendur og starfsfólk finni að þau standi í miðju straumanna sem þekking heims flæðir um. Miðað við þetta og það sem ég hef áður sagt er ekki fráleitt að halda því fram að ummæli menntamálaráðherra á málþinginu í KHÍ sem ég hef vitnað í lýsa algjörum misskilningi á áhrifum hnattvæðingar á menntastofnanir og ástæður fyrir mikilvægi alþjóðavæðingar fyrir þessar stofnanir.

Hnattvæðing, upplýsingatækni og menntun
Á málþinginu í KHÍ sagði Ólafur Páll að það væri fráleitt í dag að gera greinarmun á hversdagslegu samfélagi og tæknivæddu samfélagi (man ekki alveg hvernig hann orðaði þetta en ég geri ráð fyrir að hann var að tala um samfélög í þróuðum ríkjum þar sem enn finnast samfélög annars staðar sem eru lítið tæknivædd). Það sama á við um hnattvæðinguna vegna þess að hún er fylgifiskur nútíma tæknivæðingar. Enn sést stundum að sagt er að hlutverk menntunar sé að búa fólk undir að vera virkir þátttakendur í hnattvæddu samfélagi. Hvernig undirbúum við fólk til að takast á við stöðu sem það er þegar í og á í raun stóran þátt í að móta? Ungu fólki í dag finnst sjálfsagt að nota netið, horfa á fjölmargar sjónvarpsrásir, tala í síma hvar sem er og hvenær sem er – þau hafa alist upp við, og finnst eðlilegt, að aðgengi að upplýsingum er ekkert tiltökumál. Það sem meira er að þau finna fyrir því að þau eru ekki aðeins móttakendur upplýsinga heldur geta líka haft áhrif á umhverfi sitt með því að gefa frá sér upplýsingar. Hvað finnst þeim þá þegar menntakerfið sem þeim er gert að stunda lítur svo á að þau séu ekki enn orðnir fullgildir þátttakendur í þessu samfélagi sem þau lifa og hrærast í? Menntayfirvöld þurfa að fara að einbeita sér betur að þessum málum og þess vegna er alvöru og hnitmiðuð umræða um hnattvæðingu (og skyld mál e.o. alþjóðavæðingu) orðin löngu tímabær í þessum geira. Ennfremur er orðræðan um hnattvæðingu ekki bara mikilvæg fyrir háskólastigið heldur öll menntastig.

Athugasemdir