Málþing FÁH um heimspeki menntunar

Málþing FÁH um heimspeki menntunar

Félag áhugamanna um heimspeki stóð fyrir málþingi um síðustu helgi í tilefni af útkomu nýs heftis Hugar. Hugur er að þessu sinni tileinkað heimspeki menntunar og voru frummælendur Kristján Kristjánsson, prófessor hjá KHÍ og HA, og Ólafur Páll Jónsson, lektor hjá KHÍ, sem mér skilst að séu forsprakkar nýrrar MA námsbrautar í heimspeki menntunar.

Kristján tók fyrstur til máls og kynnti rannsóknir sínar á sjálfsvitund, sérstaklega “róttæk” sjálfshvörf sem leiða af samskiptum kennara og nemanda, þ.e.a.s. þegar kennari hefur slík áhrif á nemanda að nemandinn “finnur sig”. Kristján reifaði kenningar nokkurra fræðimanna, Gergen, Dweck og Swann, um þetta og gerði það á mjög skilvirkan og skemmtilegan hátt.

Eitt sem Kristján benti á er að viðfangsefnið hans krefst þverfaglegra vinnubragða og að það háir hann og aðra sem hafa skoðað þessi mál að samskipti milli faggreina eru lítil. M.a. vildi hann meina að lítið sem ekkert sé til um empirískar rannsóknir á sjálfshvörfum. Þá vaknaði hjá mér spurning sem umræður leiddu síðan í ljós að hafði kviknað hjá mörgum – hvað með trúarskipti (sinnaskipti eða “frelsun”)? Eru þau ekki dæmi um misróttæk sjálfshvörf? Ég veit nefnilega að þetta hefur verið töluvert rannsakað í Bandaríkjunum. Svar Kristjáns við þessu var áhugavert. Hann vill meina að þetta séu mjög ólík fyrirbæri og t.d. nefndi hann að trúarskiptum fylgi venjulega töluverðar félagslegar breytingar, þ.e.a.s. viðkomandi fer í aðra kirkju. Hins vegar þegar sjálfshvörf af því tagi sem hann er að tala um eiga sér stað verða ekki þessar félagslegu breytingar því viðkomandi er jú enn í sama bekknum. En ég held að við vitum öll að í bekkjum, sama hvað þeir eru stórir, geta þrifist margir félagslegir hópar. Það væri því mjög áhugavert (og að ég held nauðsynlegt áður en trúarskipti eru afskrifuð sem viðeigandi viðfangsefni) að rannsaka félagslega þáttinn í sjálfshvörfum þeim sem Kristján er að fást við. T.d. mætti kanna hvort breytingar verða í vinahópi viðkomandi innan bekkjar og ef svo er, gerist það fyrir eða eftir sjálfshvörf? Ef niðurstaðan yrði að félagslegar breytingar eru algengar og töluverðar bendir það til að rannsóknir á trúarskiptum séu e.t.v. gagnlegur og breiður reynslubrunnur til að byggja frekari rannsóknir á sjálfshvörfum á.

Ólafur Páll kynnti grein sína í Hug þar sem hann heldur því fram að á Íslandi sé engin menntastefna. Þetta byggir hann á 20 ára gamalli grein eftir Pál Skúlason og vill meina að lítið hafi breyst. Ólafur Páll byggir þetta að mestu á greiningu á aðalnámskrám og vill meina að þar birtist e.t.v. fræðslustefna en engin menntastefna.

Ólafur Páll hefur talað um þetta áður og þá benti ég honum á að menntastefnu væri e.t.v. að finna annars staðar en í þeim gögnum sem hann hefur skoðað. Þetta kom svo fram í athugasemdum Jóns Torfa við framsögu Ólafs Páls, en hann vill meina að í raun séu í gangi margar stefnur og að þær birtast í ýmsum gögnum. Þær kunna vissulega að skarast að einhverju leyti en það er samt engin skortur á menntastefnu. Ég held að vandi Ólafs Páls liggi í því að hann sé að leita að einhverju á röngum stað. Námskrá er ekki stefnuyfirlýsing þó svo að einhver vottur af stefnu megi greina í henni. Nær væri að líta á hana sem framkvæmdaáætlun. Mér finnst því ekki skrítið að Ólafur Páll telji sig finna þar fræðslustefnu því auðvitað er fræðsla framkvæmdarhliðinn á menntun.

Eins og Jón Torfi benti á á málþinginu birtist stefna í ýmsum skjölum og verkum yfirvalda. M.a.s. ef til væri skýr stefnuyfirlýsing um menntun er ekki einu sinni þar með sagt að það sem í henni stæði væri hárrétt lýsing á raunverulegri stefnu yfirvalda. Stefnugreining þarf að taka til allra þessara birtingarforma stefnu yfirvalda til þess að leiða í ljós raunverulega stefnu, skort þar á og misræmi. Ég held að það sé gagn af því sem Ólafur Páll er að gera og vissulega þarf umræðu um þessi mál, en mér finnst samt að hann sé að leita á röngum stað eftir því sem hann vill finna.

Athugasemdir