Viðskiptadeild HR meðal bestu í Evrópu?

Viðskiptadeild HR meðal bestu í Evrópu?

Það hefur verið nokkur umræða um mat á viðskiptadeildum háskóla sem fyrirtæki að nafni Eduniversal tilkynnti um nýlega. Helst hafa það verið formenn viðskiptafræðideilda í HÍ og HR sem hafa deilt um gildi mats Eduniversal. Mér hefur fundist nokkuð áhugavert hvernig þetta mál hefur þróast – alla vega hvernig það birtist fyrir mér:

1) Ég sá frétt á mbl.is um að viðskiptadeild HR væri meðal topp viðskiptadeilda/skóla í Evrópu. Mér fannst þetta strax undarlegt og kannaði málið. Þá komst ég að sömu niðurstöðu og forsvarsmenn viðskiptadeildar HÍ að þetta væri mjög dúbíus og líklega frekar gert í auglýsingaskyni fyrir Eduniversal en fyrir umrædda skóla. Þegar ég ætlaði svo að blogga um fréttina var hún horfin. Í raun var ég hálf feginn því ég hélt þá að HR hefði haft samband við mbl.is og fengið þá til að draga fréttina til baka, sem mér fannst hárrétt og virðingaverð viðbrögð. Svo gerist ekki meir þá stundina. (frétt mbl.is hefur ekki komið aftur en vísir.is er með sambærilega frétt hér)

2) Mér er svo sagt frá bréfi sem Runólfur Smári Steinþórsson, formaður viðskiptaskorar Háskóla Íslands, sendi nemendum í viðskiptafræði í HÍ þar sem hann gagnrýnir þetta mat Eduniversal og segir þetta í raun vera innantóm auglýsingabrella. Svo sé ég frétt um þessi viðbrögð Runólfs Smára á vísi.is. Og ég hugsa með mér, já en HR er ekkert að gera úr þessu…

3) Svo sé ég aðra frétt á vísi.is þar sem talað er við Þorlák Karlsson, forseta viðskiptadeildar HR, þar sem hann heldur því fram að þetta sé marktækt mat og að HR sé bara nokkuð stoltur af útkomunni. Svo segir hann,

“Það er fjöldi aðila sem metur háskóla og nota þeir mismunandi
aðferðir. Þetta er ein aðferðin og voru gæðin metin útfrá ákveðnum
stöðlum sem eru tilgreindir á heimasíðu Eduniversal.”

Ég hef nú skoðað svolítið matsmál háskóla og fjallaði m.a. um það í grein sem birtist í sérblaði Morgunblaðsins um menntamál fyrr á árinu (þarf áskrift). En áhugi minn á þessu er m.a. sprottin af því að þegar ég starfaði hjá Alþjóðaskrifstofu Háskólastigsins fékk ég oft póst frá hinum og þessum aðilum út í heimi sem voru að stinga upp á samstarf við háskóla á Íslandi. Þá voru iðulega fyrstu viðbrögðin að kanna alþjóðlegt mat á viðkomandi stofnun. Ég var svolítið hissa þegar ég kom fyrst á Alþjóðaskrifstofuna að komast að því að þar var oft stuðst við hið umdeilda mat Shanghai Jiao Tong háskólans í Kína, sem leggur t.d. mikla áherslu á fjölda starfsfólks sem hefur unnið Nobels verðlaunin (einhvern tíma var bent á að skv. þessu mati myndi MR sennilega koma betur út en HÍ!). Þannig að þetta er raunverulegt áhyggjuefni því niðurstöður mats eru stundum notuð án þess að fólk kynnir sér almennilega hvað liggur þarna að baki.

Svo ég snúi mér svo aftur að ummælum Þorláks sem ég vísaði í fyrir ofan, þá er í raun svo lítið sagt um matsaðferð Eduniversal á heimasíðu þeirra að það er ekki nokkur leið að meta gildi þess. Hvergi á vef Eduniversal kemur fram hverjar kríteríur þeirra eru né vægi einstakra atriða. Þar er bara listað hvers konar upplýsingar matsmenn studdust við og verður að segjast að þetta er allt saman mjög loðið og óljóst. T.d. er talið upp “size and quality of international networks and partnerships”. Ekki orð um það hvernig þessi alþjóðlegu samstarfsnet og alþjóðlegt samstarf eru metin. Ekki einu sinni orð um það hvað er átt við með “alþjóðlegu samstarfi” – hversu virkt þarf það að vera til að teljast “samstarf”, hversu margar þjóðir þurfa að vera til að það teljist “alþjóðlegt”? Þar að auki kemur hvergi fram hvaðan gögn eru fengin sem matið byggist á. M.a.s. mat Shanghai Jiao Tong er betra en Eduniversal hvað þetta varðar því þeir eru alla vega með mjög nákvæma lýsingu á matsaðferðinni þótt kríteríurnar séu svolítið vafasamar.

Nei, ég held að þetta mat Eduniversal er bara ómerkilegt tækifærissinnað bull og að best væri fyrir HR að rjúfa öll tengsl við það batterí og nefna það ekki oftar. Annað lítur bara út fyrir að vera of desperat fyrir einhverja alþjóðlega viðurkenningu, sem ég held að geri meira ógagn fyrir HR en gagn.

Athugasemdir